Karellen

Leikskólinn Grænuvellir var opnaður 15. september 2007 og var þá nýr eftir sameiningu tveggja leikskóla í sveitarfélaginu, Bestabæjar (1980-2007) og Bjarnahúss (1995-2007). Hann er staðsettur á torginu við Iðavelli 1.

Um 160 börn, frá eins til sex ára, dvelja hér samtímis á átta deildum. Þær heita Tunga, Bali, Hóll, Vilpa, Róm, Foss, Berg og Árholt og eru nefndar eftir gömlum húsum hér í nágrenninu.

Við leggjum mikla áherslu á leikinn, útikennslu, læsi, tónlist og síðast en ekki síst jákvæðan aga.


Stefna leikskólans

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og heyrir undir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Leikskólinn starfar eftir lögum um leikskóla nr 90/2008, Aðalnámskrá leikskóla 2011, skólanámskrá Grænuvalla 2014 og Skólastefnu Norðurþings. Leikskólinn starfar samkvæmt uppeldisstefnunni Jákvæðum aga sem er þróuð af Dr. Jane Nelsen auk þess sem starfið byggir að miklu leyti á hugmyndarfræði John Dewey.


Jákvæður agi byggir á sjálfstjórnarkenningum. Þær fela í sér að í stað þess að reyna að breyta hegðun barna með umbun og refsingu, er markmiðið að ná til innri hvata barnanna. Þannig læra þau að gera það sem er rétt vegna þess að þau langar til þess en ekki vegna þess að þau geri ráð fyrir að fá umbun eða verðlaun fyrir. Að sama skapi er það þannig að við beitum ekki refsingu þegar börnin sýna óæskilega hegðun, heldur vinnum að lausn með þeim og hjálpum þeim að læra af mistökum sínum. Þannig verða þau ekki hrædd við að viðurkenna mistök. Við skoðum hvað er á bak við hegðunina – hvers vegna börnin gera það sem þau gera og vinnum með það.


Jákvæður agi byggir á kenningum austurrísku geðlæknanna Alfred Adler og Rudolf Dreikus en Dr. Jane Nelsen gaf út fyrstu bókina um Jákvæðan árið 1981. Síðan þá hefur Nelsen, ásamt öðrum, skrifað fjöldann allan af bókum um stefnuna. Í jákvæðum aga eru ýmis verkfæri sem við notum í daglegu starfi. Þar má til að mynda nefna barnafundi, lausnahjól, jákvæða einveru, vinnu með tilfinningar og að bjóða upp á tvo kosti.


Fimm viðmið jákvæðs aga

1. Hjálpar börnum að finna að þau skipta máli, að þau tilheyra og að þau eru mikilvæg.

2. Sýnir að sama tíma góðvild og festu. Kennarar sýna væntumþykju og hlýju í verki og á sama tíma gæta þeir þess að meina það sem þeir segja og segja bara það sem þeir geta staðið við.

3. Ber árangur þegar til lengri tíma er litið. Hefur jákvæð áhrif á hugsun, tilfinningar, nám og ábyrgar ákvarðanir.

4. Kennir mikilvæga félagsfærni og lífsleikni; virðingu, umhyggju fyrir öðrum, lausnamiðun, samvinnu og þátttöku í litlu samfélagi sem stóru (heimili, skóli, hverfið, borgin)

5. Hjálpar börnum að uppgötva hversu hæf þau eru, eflir vald þeirra og sjálfstæði.


Dewey taldi að barnið ætti og myndi læra mest af eigin áhuga, virkni og reynslu en persónuleg reynsla er forsenda fyrir skilningi á umhverfinu. Barnið er í vissum skilningi aðalatriðið í skólanum en ekki endilega sem einstaklingur heldur sem hluti af hópi sem vinnur saman að verkefnum undir handleiðslu kennara. Hann lagði áherslu á samræður og samverur sem byggja á félagslegri eðlishvöt, áhuga á að rannsaka og uppgötva, áhuga á að framkvæma og áhuga á listrænni tjáningu. Leikurinn er mikilvægur en hann er leið til menntunar og þroska enda börnin virkir og skapandi þátttakendur þar sem þau læra af reynslu en ekki kennslu. Dewey sagði að lang mikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er löngun til að halda áfram að læra. Samkvæmt honum bera kennarar ábyrgð á að umhverfið sé hvetjandi, örvandi og skipulagt með fjölbreyttum efniviði. Einkunnarorð framfarastefnunnar eru orð John´s Dewey „learning by doing“ en þau þýða í rauninni að börn læra að reynslu. Uppeldisumhverfið á að örva stigbundna þróun barnsins frá þroskastigi til þroskastigs með hæfilega erfiðum viðfangsefnum en viðfangsefni og vandamál barnsins örva hugsun þess. Hann lagði einnig ríka áherslu á tengsl barnsins við samfélagið og tengsl skólans við samfélagsins.


© 2016 - 2024 Karellen