Karellen

Foreldrahandbók Grænuvalla

Velkomin í leikskólann Grænuvelli Um leið og við viljum bjóða ykkur velkomin í leikskólann viljum við koma á framfæri nokkrum mikilvægum upplýsingum.

Um 150 börn, frá eins til sex ára, dvelja hér samtímis á átta deildum. Þær heita Árholt, Bali, Berg, Foss, Hóll, Tunga, Róm og Vilpa og eru nefndar eftir gömlum húsum hér í nágrenninu. Í leikskólanum starfa um 40-50 manns.

Leikskólastjóri er Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir (Sigga Valdís).

Netfang: siggavaldis@graenuvellir.is

Sími: 464-6157

GSM: 847-4766


Aðstoðarskólastjóri er Helga Jónsdóttir

Netfang: helgaj@graenuvellir.is

Sími: 464-6158


Leikskólinn Grænuvellir

Iðavöllum 1 640 Húsavík

S: 464:6160

www.graenuvellir.karellen.is


Fjölskylduráð Norðurþings fer með málefni leikskólans auk annara skóla í sveitafélaginu. Fræðslufulltrúi er starfsmaður ráðsins. Fræðslufulltrúi er Jón Höskuldsson og hefur hann aðsetur í Stjórnsýsluhúsinu á Húsavík, Ketilsbraut 9. Símanúmer Stjórnsýsluhússins er 464-6100.


Að byrja í leikskóla

Þegar barnið hefur fengið leikskólapláss býður skólastjóri foreldrum á kynningarfund sem yfirleitt er í hádeginu á föstudegi fyrir aðlögunarvikuna. Á fundinum er starf leikskólans kynnt auk hagnýtra atriða sem gott er að hafa í huga í aðlögun og leikskólagöngu barnsins. Deildarstjóri kynnir foreldrum starfið á deildinni og ræðir við þá um tilhögun aðlögunar. Aðlögun tekur amk fimm daga og hafi barn verið fjarverandi um lengri tíma gæti þurft að endurtaka aðlögunina að hluta eða öllu leyti.


Þátttökuaðlögun á Grænuvöllum

Á Grænuvöllum eru börn aðlöguð í leikskólann með þátttökuaðlögun. Hún fer fram um fjórum sinnum á ári. Þátttökuaðlögun byggir á því að börn og foreldrar séu að læra að vera í leikskólanum og nái að kynnast honum saman. Kennarar barnsins fá þá tækifæri til að kynnast barninu sem hluta af fjölskyldu og sem hluta af stærri hópi. Á meðan á aðlögun stendur taka foreldrar fullan þátt í starfinu. Þeir sinna þörfum síns barns meðan kennarar læra og tileinka sér þær aðferðir sem barnið er vant. Þegar foreldrar eru virkir þátttakendur í starfi leikskólans frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og starfið í skólanum. Þegar foreldrarnir þekkja starfið vel og eru öruggir eru meiri líkur á að börnin þeirra öðlist öryggi þegar þau fara að dvelja sjálf, án foreldra sinna í leikskólanum. Með þátttökuaðlögun kynnast foreldrarnir líka hvoru öðru sem eflir deildina sem hóp barna, kennara og foreldra.

Þegar börn flytjast milli deilda er það í höndum kennara að sjá um þá aðlögun. Oftast fara kennarar af gömlu deildunum með börnunum á nýju deildirnar og dvelja þar þangað til börnin eru búin að kynnast nýjum aðstæðum og kennurum. Að aðlögun lokinni er foreldrum boðið á kynningarfund á nýrri deild barnsins.


Reglur leikskólans

Leikskólinn Grænuvellir starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, reglugerð um starfsemi leikskóla, aðalnámskrá leikskóla, skólanámskrá Grænuvalla og Skólastefnu Norðurþings. Eftirfarandi reglur gilda um umsókn, innritun og innheimtu leikskólans. Umsókn og innritun Sótt er um leikskólanám á vefsíðu leikskólans www.graenuvellir.karellen.is undir upplýsingar. Foreldrar fá tölvupóst með staðfestingu á að umsókn hafi verið móttekin. Sækja má um leikskólanám frá skráningu kennitölu barns. Hægt er að sækja um leikskóla þótt lögheimili sé í öðru sveitafélagi en til að fá inngöngu þarf lögheimili að vera í Norðurþingi. Úthlutun er háð því að foreldri/forráðamaður sé ekki í vanskilum með leikskólagjöld.

Tekið er á móti umsóknum allt árið en miðað er við að umsóknir fyrir haustið berist fyrir 1. apríl ár hvert. Börn eru innrituð í leikskólann eftir aldri þannig að eldri börn ganga fyrir þeim yngri. Börn eru skráð á biðlista frá eins árs aldri og raðast þau á listann eftir fæðingardegi og ári.

Þegar aðstæður leyfa eru yngstu börnin aðlöguð í leikskólann þrisvar til fjórum sinnum á ári. Miðað er við að foreldrar/forráðamenn fái staðfestingu á leikskólanámi með mánaðar fyrirvara. Þegar barn hefur fengið inngöngu í leikskólann er bréf sent í tölvupósti með upplýsingum um hvenær leikskólagangan hefst og hvernig aðlögun fer fram. Þegar skrifleg staðfesting á leikskólanámi hefur borist frá leikskólastjóra telst plássinu úthlutað þó eldri börn komi á biðlista áður en leikskólaganga hefst. Eldri börnin bíða þá næstu innritunar.

Ekki eru skilgreindir sérstakir forgangshópar vegna leikskólanáms en læknar og/eða sérfræðingar félagsþjónustu geta óskað eftir forgangi liggi fyrir vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila um staðfest frávik eða greiningarferli.

Gagnkvæmur uppsagnafrestur á leikskólasamningi er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Óski foreldrar/forráðamenn eftir breytingu á leikskólasamningi eða segja honum upp er það gert með tölvupósti á netföngin siggavaldis@graenuvellir.is eða helgaj@graenuvellir.is

Leikskólagjöld

Leikskólagjöld eru greidd fyrir fram, gjalddagi miðast við fyrsta virka dag hvers mánaðar. Dvalargjald skal greitt samkvæmt leikskólasamningi hvers barns. Eindagi er 20 dögum eftir gjalddaga og reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Greitt er fyrir 11 mánuði á ári. Foreldrar greiða dvalar- og fæðisgjöld samkvæmt gjaldskrá sem ákveðin er af sveitarstjórn. Norðurþing greiðir stærstan hluta dvalargjalda 4 og kostnaðar við rekstur leikskólans. Breytingar á gjaldskrá eru kynntar foreldrum með tilkynningu frá leikskólanum, jafnframt er uppfærð gjaldskrá birt á vefsíðum leikskólans og sveitafélagsins. Ef til þriggja mánaða vanskila kemur er foreldrum leiðbeint með að semja um greiðslu gjalda, annars er leikskólastjóra skylt að segja upp leikskólasamningi.

Afsláttur

Hjón eða fólk í sambúð greiða almennt gjald, einstæðir foreldrar geta sótt um afslátt hjá leikskólastjóra en þá þarf viðkomandi að vera skráður einstæður í þjóðskrá. Sækja þarf um afsláttinn árlega. Hefji einstæðir foreldrar sambúð skal greiða almennt gjald þegar sambúð hefst. Systkinaafsláttur er gefinn samkvæmt gjaldskrá leikskólans:

  • Með öðru barni 50% •
  • Með þriðja barni 100%

Námsmenn sem stunda fullt lánshæft nám samkvæmt reglum Menntasjóðs námsmanna fá 20% afslátt af leikskólagjöldum. Umsóknum skal skila til leikskólastjóra fyrir upphaf námsárs. Skila þarf innritunarvottorði frá skóla í upphafi hverrar annar.

Ekki er veittur afsláttur af fæðisgjöldum en hægt er að fá fæðiskostnað felldan niður ef nemandi er fjarverandi samfellt í fjórar vikur eða lengur. Geti nemandi ekki sótt leikskóla vegna veikinda samfellt fjórar vikur eða lengur er hægt að óska eftir niðurfellingu fæðis- og vistunargjalda gegn framvísun læknisvottorðs.

Foreldrum ber að tilkynna leikskólastjóra eða deildarstjóra um breytingu á högum sínum s.s. breytt heimilisfang, símanúmer og hjúskaparstöðu.


Opnunartímar og skipulagsdagar

Leikskólinn er opinn frá 7:45-16:15. Mælst er til þess að nemendur séu að jafnaði ekki lengur en átta tíma á dag í leikskólanum. Leikskólasamningar eru aðeins miðaðir við heila tímann og greitt er samkvæmt því. Foreldrar hafa 15 mínútna svigrúm fyrir og eftir umsaminn dvalartíma til að koma með barn í leikskólann og sækja það. Vakin er athygli á að 15 mínúturnar fyrir og eftir umsaminn dvalartíma eru aðeins hugsaðar fyrir foreldri til að hafa svigrúm til að sækja barnið. Ætlast er til að foreldri og barn hafi yfirgefið leikskólann innan 15 mínútna eftir að umsömdum vistunartíma líkur. Séu börn sótt seinna án þess að gild skýring liggi fyrir skal viðkomandi greiða 1000 kr. Fyrir hvert skipti.

Leikskólinn er lokaður á aðfangadag og gamlársdag.

Skipulags og námskeiðsdagar Grænuvalla eru sex á ári og eru starfsmannafundir innan þessara daga. Leikskólastjóri sér um að skipuleggja dagana í samráði við fræðslufulltrúa og grunnskólastjóra. Dagarnir eru svo lagðir fyrir foreldraráð og fjölskylduráð til samþykktar og eru eftir það sýnilegir á skóladagatali leikskólans.

Leikskólinn lokar í mánuð á hverju sumri og skal hvert barn samkvæmt lögum taka að lágmarki fjögurra vikna samfellt sumarleyfi ár hvert.

Sérfræðiþjónusta

Í leikskólanum er starfandi sérkennsluteymi sem sér um stuðning og sérkennslu á deildum. Félagsþjónusta Norðurþings annast aðra sérfræðiþjónustu og stuðning við leikskólann. Hlutverk hennar er að annast sálfræði- og félagsráðgjöf og stuðning við nemendur, starfsfólk og foreldra. Til þess að kalla eftir þjónustu Félagsþjónustunnar þarf skriflegt leyfi frá foreldrum. Ljósmóðir kemur reglulega í leikskólann og tekur 2,5 ára skoðunina hér auk þess sem sérkennslustjóri og ungbarnavernd funda reglulega. Talmeinafræðingur kemur einu sinni í mánuði í leikskólann og sinnir talkennslu og greiningum.

Þagnarskylda Allt starfsfólk Grænuvalla er bundið þagnarskyldu og helst hún þó látið sé af störfum. Tilkynningarskylda til barnaverndar gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu starfstétta samkvæmt 17. gr. Barnaverndarlaga nr 80/2002.

Meðferð ágreiningsmála Komi upp ágreiningur um framkvæmd þessara reglna er hægt að vísa málinu til fræðslufulltrúa sem fer með málefni leikskólans. Náist ekki samkomulag ber að vísa málum til fjölskylduráðs. Ákvarðanir sveitafélagsins um réttindi einstakra barna eru kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt 10. kafla laga um leikskóla nr 90/2008. Samþykkt af fræðslu- og menningarnefnd 10. Júní 2015 Staðfest af bæjarstjórn 16. Júní 2015

Veikindi barns

Veikist barnið skal það dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í 1-2 sólarhringa. Þegar barnið kemur aftur í leikskólann eftir veikindi getur það fengið að vera inni fyrstu tvo dagana yfir vetrartímann ef aðstæður leyfa en yfir sumartímann er ekki víst að innivera sé nauðsynleg. Í aðalatriðum er farið eftir þessari töflu um helstu smitsjúkdóma, sem unnin var af Ágústi Ó. Gústafsskyni heimilislækni í samráði við Þórólf Guðnason barna- og sóttvarnarlækni.

Útivera

Nememdur fara daglega út ef veður leyfir. Í útiveru er frjálsum leik og grófhreyfingum gert hátt undir höfði. Þannig eykst meðal annars félagsþroski, hreysti, þol og úthald.

Slys og óhöpp

Slys og óhöpp geta orðið í stórum barnahópi. Ef slíkt gerist er haft samband við foreldra og því er mjög mikilvægt að allar upplýsingar séu réttar, símanúmer, netföng og vinnustaðir til að tryggja að hægt sé að ná í foreldra öllum stundum. Ef símanúmer, netföng eða heimilisföng breytast er nauðsynlegt að láta deildarstjóra barnsins vita. Ef ekki næst í foreldra barns í tæka tíð er farið með það upp á heilsugæslu til athugunar. Öll börn í leikskólanum eru tryggð á meðan á dvöl stendur.

Foreldrasamstarf

Góð samvinna milli foreldra og starfsfólks leikskólans er grunnur þess að barnið aðlagist vel að skólanum. Daglegar upplýsingar eru nauðsynlegar til að barninu líði sem best og finni til öryggis. Foreldrar hafa aðgang að upplýsingum á töflu í fataklefa, tölvupósti, karellen, vefsíðum og í daglegum samskiptum við kennara. Foreldrar fá mánaðardagatöl yfir vetrartímann þar sem fram kemur hvað er framundan í mánuðinum auk þess sem reglulega eru sendir föstudagspóstar með fréttum af starfinu. Þegar barn hefur dvalið í þrjá mánuði í leikskólanum er foreldrum þess boðið í samtal við kennara og svo einu sinni á ári á vorönn upp frá því. Í samtölunum er m.a. rætt um líðan barnsins og þroska. Auk vorsamtalsins geta foreldrar óskað eftir samtali hvenær sem er á skólaárinu og einnig getur kennari boðað foreldra í samtal sé þörf á því. Þegar börn mæta í leikskólann er mjög mikilvægt að látið sé vita af komu barnsins, einnig er mikilvægt að láta vita þegar barnið er sótt. Kennarar skrá komur og brottfarir í karellen og geta þessar upplýsingar gegnt lykilhlutverki ef eitthvað kemur upp á og rýma þarf leikskólann.

Foreldrafélag

Við leikskólann er starfandi foreldrafélag. Allir foreldrar verða sjálfkrafa meðlimir í foreldrafélagi Grænuvalla nema ósk um annað sé borin upp við leikskólastjóra eða stjórn félagsins. Í samstarfi við leikskólann býður foreldrafélagið nemendum upp á ýmsa tilbreytingu s.s. leiksýningar, grill og fleira.

Foreldraráð

Foreldraráð starfar með hagsmuni barna að leiðarljósi. Ráðið veitir umsögn um skólanámskrá og aðrar áætlanir er varða starfsemi skólans. Einnig fjallar það um ábendingar frá foreldrum um starfsemi skólans og aðbúnað og getur komið þeim á framfæri við leikskólastjóra eða sveitastjórn.

Fatnaður

Mikilvægt er að merkja föt barnsins með nafni og hafa í hólfinu föt sem passa fyrir veður og starfsemi skólans. Leikskólataskan og vagnar mega vera í leikskólanum á virkum dögum en mikilvægt er að taka þetta heim um helgar til að auðvelda þrif á fataklefum.

Það sem á að vera í leikskólatöskunni: 

Tvenn nærföt / Tvær samfellur  Sokkar  Sokkabuxur/Leggings  Buxur  Peysa  Þykk / Hlý peysa  Tvennir vettlingar  Pollavettlingar  Ullarsokkar  Hlífðargalli  Pollagalli  Kuldagalli  Stígvél/pollasokkar  Skór  Húfa/Lambhúshetta/Buff

Muna að merkja fatnað barnanna vel. Vel merkt föt skila sér betur til eigandans ☺

Stefna leikskólans

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og heyrir undir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Leikskólinn starfar eftir lögum um leikskóla nr 90/2008, Aðalnámskrá leikskóla 2011, skólanámskrá Grænuvalla 2014 og Skólastefnu Norðurþings. Leikskólinn starfar samkvæmt uppeldisstefnunni Jákvæðum aga sem er þróuð af Dr. Jane Nelsen auk þess sem starfið byggir að miklu leyti á hugmyndarfræði John Dewey. Jákvæður agi byggir á sjálfstjórnarkenningum. Þær fela í sér að í stað þess að reyna að breyta hegðun barna með umbun og refsingu, er markmiðið að ná til innri hvata barnanna. Þannig læra þau að gera það sem er rétt vegna þess að þau langar til þess en ekki vegna þess að þau geri ráð fyrir að fá umbun eða verðlaun fyrir. Að sama skapi er það þannig að við beitum ekki refsingu þegar börnin sýna óæskilega hegðun, heldur vinnum að lausn með þeim og hjálpum þeim að læra af mistökum sínum. Þannig verða þau ekki hrædd við að viðurkenna mistök. Við skoðum hvað er á bak við hegðunina – hvers vegna börnin gera það sem þau gera og vinnum með það. Jákvæður agi byggir á kenningum austurrísku geðlæknanna Alfred Adler og Rudolf Dreikus en Dr. Jane Nelsen gaf út fyrstu bókina um Jákvæðan árið 1981. Síðan þá hefur Nelsen, ásamt öðrum, skrifað fjöldann allan af bókum um stefnuna. Í jákvæðum aga eru ýmis verkfæri sem við notum í daglegu starfi. Þar má til að mynda nefna barnafundi, lausnahjól, jákvæða einveru, vinnu með tilfinningar og að bjóða upp á tvo kosti.

Fimm viðmið jákvæðs aga

1. Hjálpar börnum að finna að þau skipta máli, að þau tilheyra og að þau eru mikilvæg.

2. Sýnir að sama tíma góðvild og festu. Kennarar sýna væntumþykju og hlýju í verki og á sama tíma gæta þeir þess að meina það sem þeir segja og segja bara það sem þeir geta staðið við.

3. Ber árangur þegar til lengri tíma er litið. Hefur jákvæð áhrif á hugsun, tilfinningar, nám og ábyrgar ákvarðanir.

4. Kennir mikilvæga félagsfærni og lífsleikni; virðingu, umhyggju fyrir öðrum, lausnamiðun, samvinnu og þátttöku í litlu samfélagi sem stóru (heimili, skóli, hverfið, borgin)

5. Hjálpar börnum að uppgötva hversu hæf þau eru, eflir vald þeirra og sjálfstæði.

Dewey taldi að barnið ætti og myndi læra mest af eigin áhuga, virkni og reynslu en persónuleg reynsla er forsenda fyrir skilningi á umhverfinu. Barnið er í vissum skilningi aðalatriðið í skólanum en ekki endilega sem einstaklingur heldur sem hluti af hópi sem vinnur saman að verkefnum undir handleiðslu kennara. Hann lagði áherslu á samræður og samverur sem byggja á félagslegri eðlishvöt, áhuga á að rannsaka og uppgötva, áhuga á að framkvæma og áhuga á listrænni tjáningu. Leikurinn er mikilvægur en hann er leið til menntunar og þroska enda börnin virkir og skapandi þátttakendur þar sem þau læra af reynslu en ekki kennslu. Dewey sagði að lang mikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er löngun til að halda áfram að læra. Samkvæmt honum bera kennarar ábyrgð á að umhverfið sé hvetjandi, örvandi og skipulagt með fjölbreyttum efniviði. Einkunnarorð framfarastefnunnar eru orð John´s Dewey „learning by doing“ en þau þýða í rauninni að börn læra að reynslu. Uppeldisumhverfið á að örva stigbundna þróun barnsins frá þroskastigi til þroskastigs með hæfilega erfiðum viðfangsefnum en viðfangsefni og vandamál barnsins örva hugsun þess. Hann lagði einnig ríka áherslu á tengsl barnsins við samfélagið og tengsl skólans við samfélagsins.

Hlökkum til að starfa með ykkur.© 2016 - 2024 Karellen