Karellen
news

Útskrift og útskriftarferð elstu barnanna

03. 06. 2022

Þessi vika er búin að vera viðburðarrík fyrir elsta árganginn sem fljótlega fer að kveðja leikskólalífið og hefja grunnskólagöngu sína í haust. Á mánudaginn mættu þau í sínu fínasta pússi í leikskólinn og útskrifuðust með glæsibrag. Hvert barn fékk rós og útskriftarskjal og sungu svo eins og englar lagið Ást eftir Magnús Þór undir stjórn Ruthar Ragnars sem er búin að vera með þau í tónlistartímum í vetur. Eftir athöfnina buðu þau foreldrum sínum upp á deild á vorsýningu og veitingar.

Á þriðjudaginn héldu börnin í útskriftarferð í Laxárvirkjun þar sem þau fengu að skoða virkjunina og sjá hvar og hvernig rafmagnið sem kemur til Húsavíkur er búið til. Það var mikil upplifun að fá að fara inn í fjallið og finna titringinn og hávaðann sem þarf til að búa til rafmagn.

Þegar skoðunarferðinni lauk héldu börnin út á leikvöll við Laxárvirkjun þar sem þau fengu m.a. andlitsmálningu og grillaðar pylsur og léku sér í brakandi blíðu. Í gleðinni heyrðist jafnvel að þetta væri betra en Tenerife því þar væri engir leikvellir!

Kennarar og starfsfólk á Grænuvöllum óska börnunum til hamingju með útskriftina og velfarnaðar í framtíðinni.


© 2016 - 2024 Karellen